Rakst á þætti á dr.dk, ekki í fyrsta sinn, sem heita arkitektens hjem. Þar er litið inn til mismunandi arkitekta og séð hvernig þeir búa. Ég er búin að sjá þá tvo þætti sem lagðir hafa verið út á netið og verð að segja að mér var virkilega ögrað. Ég varð svo pirruð, já nánast reið. Af hverju?
Jú, ég get bara ekki skilið fólk sem velur að búa í nokkur hundurð ára gömlu húsi og fjarlægir öllu ummerki um aldur hússins. Gerir það jafn sálarlaust og þessa nýju glerkassa sem þykja svo fínir í dag.
Einnig get ég pirrað mig endalaust yfir eyðilagðri götumynd, þegar allt í einu milli fallegra húsa frá um 1900 kemur ljótt slétt glerhýsi eða hús með hræðilegum fronti og litlum gluggum.
EN af hverju er mér ekki bara sama hvernig aðrir búa? Kemur mér það eitthvað við? Já, við hin þurfum líka að horfa á þessi hús sem eru, ja... ég ætla að leyfa mér að nota orðið sjónmengun.
Ég bý fallegu hverfi hér úti en inn á milli er búið að byggja "slys" og ég vil að þessi slys séu fjarlægð. Ég stend mig að því að forðast að ganga fram hjá þeim, vel aðrar götur, þar sem ég verð svo leið og reið yfir að einhver hafi fengið leyfi til svona skemmdarverka.
Ég get pirrað mig endalaust yfir þessu.
Í þessu samhengi nægir fyrir okkur Íslendinga að fara niður á Austurvöll og horfa á okkar fallega Alþingishús og svo, afsakið orðbragðið "ógeðið" sem tengir það og næsta hús sem er fallegt timburhús. Eða tenginguna milli þar næstu húsa? Ekki er hún skárri.
Svo lítur maður til vinstri og þá horfir á hús sem allir eru sammála um að sé fallegt Gamla apótekið og svo Hótel Borg.... en hvað er þetta eiginlega á milli? Svar; slys sem fjarlægja ætti ekki seinna en í dag.
Ég held ég leyfi mér að fullyrða að um það séu allir sammála.

Pósthússtræti. Sjáið þið fallega húsið í miðjunni?
nei, ég veit, ekki ég heldur.
Reykjavík midtby, kan I se den smukke bygning i midten?
nej, det ved jeg godt, det kan jeg heller ikke.